Færsluflokkur: Matur og drykkur

Hvítlaukur

Hvítlaukur er að mínu mati alveg ómissandi í matargerð. Ég gæti sett hvítlauk í nánast allt. 

Á myndinni sjáið þið hvítlaukinn sem mamma var að rækta, hún var að taka hann upp um daginn, hann er ferskur, fallegur og bragðast vel!

                                 isl_hvitlaukur

Hvítlaukur er alveg meinhollur. Samkvæmt National Cancer Institute (www.cancer.gov) hafa rannsóknir sýnt að þegar fólk borðaði mikinn hvítlauk var hættan á að fá krabbamein í meltingarfærin greinilega minni.  Það er mikið verið að rannsaka samband hvítlauks og krabbameins.

 

  • Efnin í hvítlauk örva DNA viðgerðir í frumum.
  • Hvítlaukur hefur andoxunareiginleika.
  • Hvítlaukur bætir ónæmiskerfið, er góður gegn bakteríu-, veiru-, og sveppasýkingum og bólgum. 
  • Hann er góður fyrir hjartað.
  • Inniheldur C vítamín
  • Er talinn vinna gegn krabbameini.
  • Létt eldaður hvítlaukur lækkar blóðþrýsting og kólestról.
  • Góður gegn hósta og bronkítis.

 

Svo hef ég oft heyrt að það hjálpi að borða hvítlauk í stríðinu við moskítóflugur. Þær eru ekki hrifnar af lyktinni.

Plíííís, ekki segja að þú getir ekki borðað hvítlauk vegna andfýlunnar sem oft fylgir. Tyggðu bara smá steinselju eftir máltíðina J

 

Enn og aftur eru þetta upplýsingar sem eru eingöngu ætlaðar til fræðslu og eru mjög aðgengilegar í bókum og á veraldarvefnum. 

Heimildir: cancer.gov og naturalsociety.com


Grænmetisfæði

Grænmetisætur missa af jólasteikinni og allskonar "ómissandi" mat. En þeir missa líka af allskonar
sjúkdómum og heilsukvillum.

Hér er áhugaverð grein úr tímariti "National Institute of Health" sem er gefið út af einhverri ríkisstofuninni í Bandaríkjunum.

Greinin er á ensku og hana má finna hér:

http://newsinhealth.nih.gov/issue/Jul2012/Feature1

"To date, the researchers have found that the closer people are to being vegetarian, the lower their risk of diabetes, high blood pressure and metabolic syndrome (a condition that raises your risk for heart disease and stroke)."

Ég er ekki alveg sammála öllu sem kemur fram í greininni en hún er samt áhugaverð.


mbl.is Bakaðar paprikur með grænmeti og kúskús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegan banana split

Ekki reyna að segja mér að vegan banana split sé hvorki girnilegt né gott á bragðið. Á myndinni sjáið þið það sem ég fékk í kvöldmat! Bananar, jarðarber, kiwi, möndlur, pekanhnetur, soya vanilluís, hindberja-brómberjasósa, vegan þeyttur rjómi, carob og vegan butterschotch. Það sem mér finnst svo skemmtilegt við vegan mat er að manni líður svo vel eftir að hafa borðað. Maður gæti ímyndað sér að þetta væri þungt í magann en það er það alls ekki, mikið léttara en "alvöru" útgáfan en samt mjög seðjandi, bara ekki óþægilega þyngjandi. :)

 

img_6623-3_1158031.jpg
 
 

 

 

PS. Vegan þýðir að matur innihaldi engar dýrafurðir eins og kjöt og mjólkurvörur.
PSS. Afsakið hvað myndin er lítil, það tekur ár og aldir að setja inn þyngra skjal.


Erfitt með að sofna?

Hér er annar lítill moli.

1. Rannsókn sem gerð var í Taiwan sýndi að þeir sem borðuðu 2 kiwi  einni klukkustund fyrir svefn á hverju kvöldi í 4 vikur, sofnuðu 35% hraðar en þeir sem gerðu það ekki.
Kiwi innihalda efnið serotonin en það kemur reglu á svefninn.

2. Þess má geta að bananar, plómur og ananas innihalda einnig gott magn af serotonin. Valhnetur innihalda mjög mikið serotonin og þá sérstaklega tegundin "black walnut". Tómatar og spínat innihalda líka serotonin en í minna magni. 

Heimildir:
1. Þessar upplýsingar voru birtar á ensku í tímaritinu Adventist World. En þar er Men’s Health  gefið upp sem heimild.
2. http://www.livestrong.com/article/447943-what-food-or-fruit-contains-serotonin/


Kókos-epla-smákökur

'Mjög einföld uppskrift af smákökum sem tekur enga stund að baka. 

Ég var búin að lofa vinkonu minni uppskrift af þessum kókos-epla-smákökum sem hún smakkaði um daginn. Þetta var fyrsta skiptið sem ég bjó þær til og ég sleppti sykrinum. Úr þessari uppskrift verða u.þ.b. 20 smákökur.

2 bollar kókosmjöl
1 bolli heilhveiti eða hrísgrjónamjöl (helst úr hýðishrísgrjónum)
2 msk. Maizena (maísmjöl)
1 tsk. salt
1 1/2 bolli epli
2 msk. sucanat eða hrásykur eða púðursykur (má sleppa)
1/3 bolli hunang
1 tsk vanilla
1/4 bolli eplasafi (gæti þurft meira, degið á ekki að vera þurrt)

 

  • 1 bolli af kókosmjöli, hveitinu og saltinu blandað saman í matvinnsluvél í 1mín.
  • Restinni af kókosmjölinu bætt ofan í með eplinu og sykrinum. Matvinnsluvélin sett í gang á ný þangað til þetta er orðið að mauki.  
  • Hunanginu og vanillunni bætt ofan í og öllu er blandað saman.

 

Það er gott að nota ísskeið eða matskeið til þess að móta litlar smákökur, það má síðan fletja þær út með gaffli ef maður vill. Bakað við 170°C í u.þ.b 15 mín eða þangað til að þær eru orðnar aðeins gylltar.  

 


Maturinn er meðalið

Ég sá þessa mynd, en hún gekk á milli vina minna á Smettisskruddunni (Facebook).
Ég get ekki tekið 100% undir hana vegna þess að það er ekki hægt að alhæfa svona,
og þetta er sett svolítið svart/hvítt fram. Samt sem áður eru þarna skilaboð sem við getum
pælt í.

 

523476_3375535580635_1036686704_33089572_593959757_n.jpg

Hippókrates, faðir læknisfræðinnar, sagði "Let food be your medicine, and your medicine be your food". Þetta þýðir að það sem við borðum ætti að vera meðalið okkar, við myndum þá líklegast vilja borða eitthvað sem styrkir okkur og læknar frekar en það sem gerir okkur illt. Hann sagði líka að "Medicine should do no harm", en hefðbundin lyf í dag hafa heldur betur aukaverkanir. Ég vildi óska þess að þetta væri ennþá stefnan hjá mörgum fagstéttum í dag.

Ekki misskilja mig samt, ég er gífurlega þakklát fyrir læknavísindin og lyfjafræðina. Mér finnst bara svo rökrétt að borða þann mat sem hressir mann og styrkir og að það sem ég læt ofan í mig hafi bein áhrif á líkamsstarfsemina.

 


mbl.is Heilbrigði kemur í veg fyrir krabbamein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um hamp fræ...

Ótrúlega næringarrík fræ, furðurleg samt hvað Ísland er oft langt á eftir samtímanum...

Eftirfarandi skrifaði ég  6.9.2011

Í dag var ég að kynna mér Hamp fræ, afurð sem er ekki mjög þekkt á Íslandi. Hamp fræ eru fræ plöntunar Cannabis Sativa. Þetta er sama tegund og Maríjuana er framleitt úr en annað afbrigði. Hamp fræin eru mjög próteinrík og hafa verið kölluð „næringarlega fullkomnasta fæðan“. Prótein eru úr amínósýrum og það er merkilegt að þessi hamp fræ innihalda 18 af 20 amínósýrunum sem eru byggingareiningar próteina og þær innihalda þær 10 lífsnauðsynlegu sem líkaminn okkar framleiðir ekki sjálfur. Próteinin í hampi eru svo góð því að líkaminn vinnur auðveldlega úr þeim. Edestin er globulin prótein sem maður finnur mikið af í fræjunum. Edestin er sagt bæta meltinguna .

Það sem mikið hefur verið talað um í Hamp fræjum eru hollu fitusýrurnar. Hamp fræ eru sögð hafa eitt besta hlutfall sem hentar manninum af fitusýrum. Omega3,6 og GLA. Það er líka E vítamín í þessum fræjum.

Hampfræ eiga líka stuðla að: Lækkun blóðþrýstings. Lækkun LDL kólestrólmagns. Minnkun bólgna og vera góð við gigtareinkennum. Aukinni orku og betri meltingu.

Efnin í Hampfræjum eiga líka að vera góð fyrir þurrt skinn og vera góð fyrir hárið.Þegar litið er á amínósýrurnar í Hampfræjum þá hefur verið sagt að þetta sé nánast fullkomin afurð til að fá prótein. Fræin innihalda allar amínósýrur sem líkaminn þarf. Önnur næringarefni í fræjunum eru magnesíum, C-vítamín, beta-karótín, kalk, trefjar, járn, B1 vítamín, B2 vítamín, B3 vítamín, zinc, kopar, manganese, chlorophyll og phytosterol (lækkar kólestról!)

Ég hef bara rétt aðeins kynnt mér næringargildi Hampfræja en það sem mér finnst mest spennandi er bara hvað þau eru góð á bragðið. Ég sá þau fyrst þegar ég var úti í Kanada, en þar er leyfilegt að rækta þau. Þetta eru ekki ódýr fræ en þau eru ræktuð undir mjög ströngu eftirliti. Þetta er ótrúlega spennandi afurð og sérstaklega fyrir þá sem vilja ekki drekka kúamjólk.

Við erum nefnilega farin að búa til Hamp mjólk úr þessum fræjum. Það er mjög einfalt og ég læt uppskriftina fylgja með. Það er mikil fita í fræjunum (holl fita sem er nauðsynleg) og þegar maður býr mjólkina til þá fær maður svona frekar þykka, rjómakennda mjólk. Þetta er nánast eins og að vera með mjólkurhristing úti á morgunkorninu. Hún er svo góð að maður getur drukkið hana eintóma og það er enn betra að bæta nokkrum berjum eða ávöxtum við. Ég hef séð hamp fræ (Hemp seeds) til sölu hér á landi, þá örugglega í heilsubúðum/heilsuhornum. Við keyptum okkar í Kanada. Ég er alveg orðin háð þessari mjólk. Samt get ég lofað að það er ekkert maríjúana í henni, ég er ekki háð henni í þeim skilningi. ;)

Hér er uppskriftin:
1 bolli hampfræ
5 döðlur
örlítið salt
vanilla/vanillusykur/vanillusýróp
1 bolli vatn

Þetta er allt sett í blandara og þegar það er nokkuð vel þeytt þá bætir maður meiru vatni við. Samanlagt á þetta að gera u.þ.b. 1700ml af mjólk.

Endilega prófið þetta, sérstaklega ef ykkur langar að minnka kúamjólkurneyslu, eruð vegan eða með mjólkuróþol.

Ég vil minna aftur á að þetta eru allt upplýsingar sem ég er að afla mér í gegnum heimildir og eiga eingöngu að vera til fræðslu. Ég er ekki með doktorspróf í hemp fræjum svo ég gef mér smá +- frávik fyrir mannleg mistök, en á heildina litið líst mér ótrúlega vel á þessa vöru!

Ég studdist við :
Wikipedia greinar um Hamp mjólk og hamp. http://www.ratical.com/renewables/hempseed1.html
Grein um Hamp olíu sem Dr.Weil, MD frá Harvard skrifaði.
http://www.thenourishinggourmet.com/2009/03/hemp-seed-nutritional-value-and-thoughts.html
Hemp Seed: The most Nutritionally complete food source in the worlds: Hemp Line Journal, July-August 1992, pp. 14-15, Vol. I No. 1

 


mbl.is Ofurfæða sem kemur úr sömu átt og kannabis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamp fræ

Það er hægt að búa til svo margar tegundir af hristingum, um að gera að skella öllu í blandarann.
Þetta er örugglega mjög góð uppskrift (þessi sem er í fréttinni sem ég er að blogga við). Þeir sem vilja taka þetta skrefinu lengra geta prófað að skipta kakóduftinu út fyrir karóbduft.

Ef þið viljið vita meira um hamp fræin þá skrifaði ég um þau fyrir örfáum mánuðum. Ýtið hér
Þar finnið þið líka uppskrift að mjólk úr hampfræjum.

 


mbl.is Alvöru súkkulaðisjeik í morgunmat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt epli á dag...

...kemur heilsunni í lag. Eða "An apple a day keeps the doctor away". Þetta getur varla verið rétt, eða hvað? Þau eru allavega góð gegn ýmsum kvillum. Þ.á.m. hafa efnin í eplum þá eiginleika að vera: þvagræsandi, kólestróllækkandi, blóðfitulækkandi, andoxunarefni, og þau vinna á móti bæði niðurgangi og harðlífi. Epli

  • Meira en 40 milljón tonn af eplum eru ræktuð á hverju ári.
  • Epli eru í 4. sæti af mest framleiddu ávöxtum í heiminum.
  • Eplin eru auðveld í matreiðslu, fara vel með nánast hverju sem er og eru mjög góð fyrir okkur.

Sykrur í eplum eru aðallega frúktósi og þess vegna mega sykursjúkir borða þau.  Þau innihalda mjög lítið af próteinum og fitu. Meðal vítamína í eplum eru C og E, og af steinefnum eru m.a. pótassíum og járn,.

Í 100g af hráu epli fær maður 11% af þeim trefjum sem maður þarf yfir daginn. Stærstur hluti trefjanna í eplum eru pektín. Pektín eru  trefjar sem leysast ekki upp. Þær draga í sig vökva og ýmisleg eiturefni og annan úrgang sem þær taka með sér út úr líkamanum og ofan í skólpræsikerfi borgarinnar.  

Lífrænar sýrur í eplum endurnýja normalflóruna í þörmunum og varna þannig gegn gerjum í þörmunum.

Tannín (barksýra). Epli er einn þeirra ávaxta sem er hvað ríkastur af tanníni. Tannín eru bólgueyðandi.

Boron hefur verið lítið rannsakað en það er frumefni sem finnst í eplum. Rannsóknir benda til þess að boron vinni með kalki og magnesíum í líkamanum og getur óbeint komið í veg fyrir beinþynningu.

Epli jafna út blóðþrýsting, hvort sem hann er of hár eða of lágur.

Lifrin og krónískt exem af völdum eiturefna.
Epli draga í sig eiturefni úr smáþörmunum, og auðvelda þar með hreinsun blóðsins og húðarinnar. Epli hjálpa til við að losa harðlífi og  stuðla að hreinsun lifrarinnar sem annars, ef full af eiturefnum getur valdið húðvandamálum.

Hátt kólesteról og æðakölkun
Epli lækka kólesteról  og koma í veg fyrir æðakölkun.  Það hefur sýnt sig að það að borða 2-3 epli á dag í nokkra mánuði dregur verulega úr kólestrólinu (þá er líka skynsamlegt að halda sig frá því sem hækkar kólestrólið).

Krabbamein í ristli
Rannsókn sem var framkvæmd í Japan sýndi fram á að epli borðuð í miklum mæli geti hjálpað við að hindra vöxt á fjölgun krabbameinsfruma í ristli.

En það er svo leiðinlegt að borða epli.

  • Hrá:  Mælt er með því að skræla epli vegna þess, að það er lítið magn af trefjum og vítamínum í hýðinu. Svo er allskonar efnum og gljáa sprautað á eplin til þess að þau líti vel út lengur. Svo er hýðið ekki eins auðvelt í meltingu.
  • Eplamauk: Það er svo gott á bragðið og svo er það tilvalið fyrir lítil börn og þá sem hafa litla matarlyst vegna veikinda eða öldrunar. Svo er það bara svo gott út á grauta og ofan á brauð.
  • Bökuð epli eru yndislega góð og það er jafnvel hægt að strá smá kanil ofan á þau.
  • Soðin epli eru líka mjög góð, og það er hægt að stappa þau í eplamauk.
  • Safi: Það er ekki slæm hugmynd að setja epli í safapressuna upp á tilbreytingu.

 Upplýsingar úr Healthy Foods eftir George D. Pamplona-Roger, læknir, skurðlæknir og prófessor í næringarfræði. 


Lárperan er vanmetin

Myndi þig ekki langa til þess að borða eitthvað sem gefur þér A,C,D,E og K vítamín og kannski líka B vítamínin (thiamín, níacin, biotin, pantothenic sýru, B-6, B-12 og fólat. Væri ekki æðislegt ef þessi ávöxtur innihéldi líka Kalíum (potassium), kalk, fosfór, sink, járn og kopar fyrir blóðið,  Lutein (mikilvægt fyrir augnheilsu) og magnesíum .

Ef svarið er „jú, að sjálfsögðu“ þá erum við í sama báti. Góðu fréttirnar eru þær að lárpera (avocado) inniheldur allt þetta.  Í þokkabót er hún líka svo fallega græn, mjúk og góð á bragðið.

Lárpera (avocado) er ávöxtur, ekki grænmeti en það skiptir svo sem engu máli.

Efni í lárperunni stuðla að lækkun LDL kólestrólsin.Lárperur

Eins og kom fram hér þá hjálpar avocado við að koma reglu á blóðþrýstinginn.

Nú hvernig borða ég þá avocado?

Þau eru venjulega hörð þegar maður kaupir þau úti í búð, þessi í grænu netunum eru oftast mjög fín. Þau þurfa venjulega að standa við stofuhita í nokkra daga áður en þau eru tilbúin. Þau eru orðin góð þegar þau eru farin að gefa eftir þegar maður kemur við þau. Þetta kemur með reynslunni, maður opnar etv. nokkur avocado of snemma eða of seint en fær þetta síðan á tilfinninguna. Lárperan er skorin í tvennt og innihaldið skafið úr. Ef avocadoið er brúnt þá er það ónýtt en ef það eru bara nokkrir brúnir deplar eða blettir þá má bara skera þá frá. Ekki geyma lárperu nálægt eplum, þá skemmast þau hraðar.

Ég tók meira að segja mynd fyrir ykkur til þess að sýna ykkur hvað lárperurnar eru fallegar!

Hægt er að borða lárperur eintómar, ofan á ristað brauð, með salati, sem ídýfu, með baunaréttum... endalausir möguleikar.

Guacamole

Guacamole er mjög vinsælt og mjög einfalt og gott. Það má stappa allt saman eða setja í blandara.

Innihald úr 1 frekar stóru vel þroskuðu avocado
1-2 hvítlauksrif
smá sítrónusafi (úr ferskri sítrónu að sjálfsögðu)
salt eftir smekk

Sumir vilja líka tómat í, sílantró, pipar eða e-ð annað. Það má setja hvað sem manni dettur í hug.

Barnamatur

1 avocado + 1 banani  = stappað saman.

Mjög einfalt, mjúkt, bragðgott, gífurlega auðmeltanlegt, inniheldur mikilvægar hollar fitusýrur og önnur næringarefni sem að mömmur vilja að börnin sín fái. Þetta var uppáhalds barnamaturinn minn og ég verð að játa að ég borða þetta enn í dag!

Gangi ykkur vel að prófa ykkur áfram!

Upplýsingar frá avocado.org, avocado.com og mömmu reynslubolta þegar það kemur að barnamat.


mbl.is Ekki henda steininum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband