Færsluflokkur: Matur og drykkur

Kjötskorts-borgarar

Ég hef mjög mikinn áhuga á mat, ég grínast stundum með þetta og segi að það að borða sé sérstakt áhugamál mitt. Líkaminn okkar gengur fyrir fæðu, þess vegna finnst mér sérstaklega gaman að lesa mig til um það sem ég læt ofan í hann. Þegar ég veit aðeins um það hvernig epli hjálpar líkamanum að starfa eðlilega þá er ennþá skemmtilegra að borða það. Síðan mín hefur legið í dvala vegna mikilla anna en nú er sumarið að koma, með sínum tómötum og jarðarberjum. Ég hlakka til að deila með ykkur nokkrum færslum á næstu vikum.

 IMG_4498

Ég held ég hafi gleymt að sýna ykkur litríku opnuna sem birtist í Morgunblaðinu 5. maí 2013. Smellið á myndina til að stækka hana, annars er hún skýrust í gagnabanka Moggans. Í greininni fékk ég myndarlega vini mína til þess að smakka á hollum barnvænum mat. Nú er kjötskortur á landinu, en þá er tilvalið að prófa nýja hamborgara sem eru hollir og trefjaríkir. 

Hafraborgarar

4 bollar vatn

½ bolli soja sósa

¼ bolli næringarger

2 msk olía

1 msk möluð hörfræ

1 msk þurrkuð basilíka

2 tsk hvítlauksduft

2 tsk laukduft

1 tsk malað kóríander

1 tsk salvía

1 bolli smátt saxaðar valhnetur

4 bollar haframjöl

  1. Setjið allt nema haframjölið í pott á miðlungs hita.
  2. Þegar suðan hefur komið upp, hellið haframjölinu hægt út í og hrærið. Takið pottinn strax af helluni, setjið lokið á og leyfið honum að kólna.
  3. Hitið ofn að 180°C
  4. Mótið hamborgara úr deiginu og bakið í 20 mín á hvorri hlið.

Þessir borgarar eru bragðgóðir, bráðhollir og haldast vel saman. Tilvaldir á grillið eða í samlokuna. Við búum venjulega til slatta og eigum til í frystinum.

 

Þar til næst,

Elísa

 

P.s. Hver er uppáhaldsávöxturinn þinn? Ég vil gjarnan taka hann fyrir í næstu færslu.  


Ókeypis heilsu-matreiðslunámskeið!

Má bjóða þér á ókeypis matreiðslunámskeið?

Stephanie Howard, frá Bandaríkjunum, hefur gefið út tvær vandaðar matreiðslubækur. Hún er nú komin til landsins og vill bjóða þér á ókeypis matreiðslunámskeið. Það verður haldið 21. 22. og 23. janúar í Suðurhlíðarskóla (Suðurhlíð 36) kl. 16:30-18:30.

Hún leggur sérstaka áherslu á heilsufæði og þetta er frábært tækifæri fyrir þá sem vilja læra að elda grænmetisrétti.

Nauðsynlegt er að skrá sig fyrir 17. janúar  í síma 867-1640 eða á vigdislinda@hotmail.com

Ekki láta svona gott tækifæri fram hjá þér fara :)

 

1554509_1425782647657335_456732357_n 


Ókeypis heilsu- og matreiðslunámskeið

Sælir verið þið lesendur,

Ég vil benda ykkur á bls. 32-33 í sunnudagsmogganum. Þar er skemmtileg umfjöllun um þetta blogg, og nokkrar góðar uppskriftir.  Ég vonast til þess að skrifa nokkra nýja pistla á næstunni - þegar prófatímabilinu lýkur. Fyrir nokkrum vikum tók ég saman nokkra áhugaverða pistla sem birst hafa á síðunni en þá samantekt finnið þið með því að smella hér.

Green Apple

Einnig langar mig til þess að benda ykkur á mjög áhugavert heilsu- og matreiðslunámskeið. Vinafólk okkar fjölskyldunnar, Adrian Lopez og Vigdís Linda Jack hafa verið að miðla af reynslu sinni við góðar undirtektir og hefur námskeið þeirra nýst fjölmörgum. 


Adrian var með sykursýki, of háan blóðþrýsting og var 134 kg. Með breyttum lífsstíl náði hann ótrúlegum árangri. Undanfarin 4 ár hefur hann verið að rannsaka efnið og miðlar því með fyrirlestrum og matreiðslunámskeiðum. 

Námskeiðið hefst 8. maí. kl. 20:10 á Ingólfsstræti 19. Einu sinni í viku í 6 vikur. Upplýsingar og skráning eru í síma 867-1640. 


Áhugaverðustu pistlarnir - samantekt

Velkomin á síðuna mína! 

Ég hef mikinn áhuga á heilsu og hef verið að sanka að mér upplýsingum á undanförnum árum. Ég vona að efni síðunnar vekji áhuga ykkar og hvetji ykkur áfram á leið til betra lífs! Gamlar greinar vilja oft týnast neðst í bunkanum en hér eru tenglar nokkurra áhugaverða pistla:

 

Epli: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1233768/

Lárpera: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1233329/

Vatn: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1188325/

Lakkrís: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1210203/

Þögli morðinginn - Of hár blóðþrýsingur: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1233270/

Linsubaunir - uppskrift: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1196037/

Mjólk: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1214157/

Cannabis Sativa á morgunkornið: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1234122/

Næring fyrir heilann: http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1187592/

Kókos-epla smákökur:  http://elisae.blog.is/blog/elisae/entry/1234546/

 


Smáskref

"Þeir sem borðuðu meira en 160 grömm af unnum kjötvörum á dag, sem er svipað magn og tvær pylsur og sneið af beikoni, eru 44% líklegri til að deyja á undan þeim sem slepptu unnu kjötvörunum. Munar allt að 12,7 árum á lífslíkum þeirra."

Þetta eru ekki nýjar fréttir, ótal rannsóknir staðfesta þetta. Það er betra fyrir okkur að borða  minna kjöt og meira grænmeti :) Það krefst ef til vill smá fyrirhafnar í byrjun en svo verður það ekkert mál. Það er um að gera að byrja smátt, hafa t.d. 1 dag í viku "grænmetisfæðisdag" og gefa sér tíma á þeim degi til þess að prófa nýjar spennandi uppskriftir, læra á nýjar baunir o.s.frv.  Svo er hægt að auka hlutfall grænmetisrétta smátt og smátt. Svo þyngist buddan líka, það er nefnilega í mörgum tilvikum ódýrara að vera á grænmetisfæði, þó svo að sérvörur geti verið dýrar. 

Í eftirfarandi færslu er virkilega einföld og bragðgóð uppskrift af linsubaunarétt sem hægt er að útfæra eins og hverjum og einum hentar. Linsubaunir eru auðveldar í matseld því þær þarf ekki að leggja í bleyti. Verði ykkur að góðu! Smellið hér. 

 

 


mbl.is Farið varlega í unnu kjötvörurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjartasjúkdómar og grænmetisætur

Var að lesa áhugaverða frétt frá BBC: http://www.bbc.co.uk/news/health-21258509 um rannsókn sem var nýlega birt í American Journal of Clinical Nutrition (mjög virt tímarit).

"Gerð var rannsókn á 44,500 Bretum og Skotum sem sýndi að grænmetisætur voru 32% minna líklegri til þess að deyja úr og þurfa á læknisaðstoð vegna hjartasjúkdóma."

Grænmetisæturnar voru líklegri til að vera með kólestrólið, blóðþrýstinginn og líkamsþyngdina í lagi. 

Þetta eru góðar fréttir því hjartasjúkdómar eru plága á Vesturlöndum. 94.000 manns deyja af völdum hjartasjúkdóma í Bretlandi á ári hverju og 2.6 milljónir sem þjást af þeim þar í landi.

Enn og aftur er verið að sanna og minna okkur á það að matarræðið okkar hefur áhrif á heilsuna. 

 

PS.  Hér  er pistill sem ég skrifaði um "þögla morðingjann" (ofháan blóðþrýsting).


"Meatless Monday" í Los Angeles

Fréttin á Mbl um kjötlausu mánudagana í Los Angeles kom mér skemmtilega á óvart. Að sjálfsögðu er ekki verið að banna neinum að borða kjöt á mánudögum en það er einmitt oftast í svona smáskrefum sem fólk fikrar sig í átt að hollari lífsstíl.

Kjötlausir mánudagar góðir fyrir umhverfið og heilsuna :) Það var lýðheilsudeild John Hopkins háskólans sem kom "Meatless Monday" átakinu af stað og byrjaði á mötuneyti John Hopkins spítalans. Nú er verkefnið orðið umfangsmeira og hefur dreifst um Bandaríkin.

Það er sniðugt fyrir fjölskyldur sem vilja auka grænmetisneyslu að festa einn dag í viku sem "grænmetisfæðisdag". Á þessari síðu er slatti af uppskriftum og nokkrar góðar ástæður þess að draga úr kjötneyslu. http://www.meatlessmonday.com/

 


mbl.is Mánudagar verði kjötlausir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænmetisvísur

Skemmtileg og vel kunnug vísa úr Dýrunum í Hálsaskógi. 

Þeir sem bara borða kjöt
og bjúgu alla daga
þeir feitir verða og flón af því
og fá svo illt í maga.
En gott er að borða gulrótina,
grófa brauðið, steinseljuna,
krækiber og kartöflur
og kálblöð og hrámeti.
Þá fá allir mettan maga,
menn þá verða alla daga
eins og lömbin ung í haga,
laus við slen og leti.

Sá er fá vill fisk og kjöt
hann frændur sína étur
og maginn sýkist molnar tönn
og melt hann ekki getur.
En gott er að borða gulrótina,
grófa brauðið, steinseljuna,
krækiber og kartöflur
og kálblöð og tómata.
Hann verður sæll og viðmótsljúfur
og vinamargur, heilladrjúgur
og fær heilar, hvítar tennur,
heilsu má ei glata.

 

Thorbjörn Egner 


Allur sannleikurinn?

Það er auðvitað sniðugt hjá fyrirtækjum eða hagsmunaaðilum að fara í skólana til að auglýsa vörurnar sínar. Ná í unga viðskiptavini, það er gamalt trikk. 
(Þessi pistill er skrifaður vegna fréttar sem birtist á Mbl 26.09.12 um 16.000lítra af mjólk sem skólabörn drukku þann dag)

En getur verið að börnin hafi fengið valdar upplýsingar?

 

  • T.d. benda rannsóknir til þess að casein mjólkurpróteinið valdi ófrjósemi í karlmönnum og galaktósi því sama í konum. 
  • Hafið þið heyrt að fólk sé ekki með nógu mikið kalk? Í raun og veru borðar fólk, allavega á vesturlöndum, gífurlegt magn af kalki, sérstaklega úr mjólkurvörum. En við borðum svo mikið af dýrapróteini. Þegar líkaminn meltir það framleiðir hann brennisteinssýru. Líkaminn notar kalk sem "búffer" til að jafna pH stuðulinn. Við missum því mikið kalk með sýrunni í þvagi.
  • Nýlega varin doktorsritgerð í næringarfræði frá HÍ, benti á að þeir íslensku karlmenn sem neyttu mikillar mjólkur þegar þeir voru á aldrinum 10-20, voru 3x líklegri til að greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein en þeir sem drukku minna af mjólk á þessum aldri.
  • Rannsóknarmenn í Harvard komust að því að fólk sem drakk 2+ glös af mjólk á viku var ekki minna líklegt til að fá beinbrot en þeir sem drukku minna en 1 glas á viku. 
  • Indland, Kína og Japan eru meðal þeirra landa þar sem mjólkurneysla er frekar lítil. Þar er tíðni beinþynningar líka lítil. 
  • Svo er athylgisvert að 90% fólks frá Asíu, 70% svertingja og Indíjána, og 50% „hispanics“ eru með mjólkuróþol.
  • Það er kalk í mun fleiri matvörum en mjólk. Það er því óþarfi að auglýsa mjólk eins og hún sé lífsnauðsynlegt næringarefni. 
  • Harvard háskóli tók mjólkurvörur út af "fæðudisknum" (líkt og fæðupýramídi) sínum en nú er glas við hlið disksins þar sem stendur að mjólkurneysla ætti ekki að vera of mikil.
283445_10150250921598818_215379383817_7204479_6340085_n 
 
 
Enn og aftur vil ég benda á að þetta eru allt upplýsingar sem ég hef aflað mér í gegnum mjög aðgengilegar heimildir og eiga eingöngu að vera til fræðslu.
 
Heimildir: 
http://www.hsph.harvard.edu/nutritionsource/healthy-eating-plate/index.html 
http://www.hsph.harvard.edu/nutritionsource/what-should-you-eat/calcium-full-story/ 

Það sem fyrir þeim er haft?

Það er sorglegt að næstum fjórðungur níu ára barna séu of þung.
Ofþyngd getur aukið líkurnar á að einstaklingar fái of háan blóðþrýsting, áunna sykursýki, hjartasjúkdóma, öndunartruflanir, þunglyndi og margt fleira.  

Healthy-eating-image-3

Getur verið að íslensk börn sitji of mikið? Í skólanum, fyrir framan (leikja)tölvuna og sjónvarpið? Hreyfa þau sig kannski of lítið á móti?

Árið 2003-2004 borðuðu 9 og 15 ára íslensk börn of mikinn sykur, of lítið af trefjum. Neysla grænmetis og ávaxta var aðeins helmingur ráðlagðs dagsskammtar.

Ef ég ætti að giska á lausn myndi ég segja:
Meiri ávexti, grænmeti, hreyfingu og meira vatn og heilt korn.
Minna af nammi, gosdrykkjum, sykruðum mjólkurvörum, hvítu næringarsnauðu gúmmíbrauði og sjónvarpsglápi.

EN "hann Palli minn borðar ekki grautinn sinn nema það sé sykur á honum"! Mig grunar að "Palli" borði það sem fyrir honum hefur verið haft.

Þegar ég var ennþá yngri þoldi ég ekki grænkál, en þá var lítið grænkálsblað sett á diskinn minn á hverjum degi og einhvernvegin snerist umræðan við matarborðið mikið um öll næringarefnin í grænkáli þangað til ég gleymdi því hvað mér líkaði það illa.

 

  • Börn geta tekið þátt í að rækta grænmetið, elda matinn.
  • Það er hægt að segja þeim hvað spergilkálið gerir fyrir líkamann
  • O.s.frv. 

 

Það er til svo mikið af góðum og hollum mat. Það er gaman að borða hollt, manni líður mikið betur og það er mjög auðvelt ef viljinn er fyrir hendi.  

 

PS. Ég vil alls ekki gera lítið úr ofþyngd eða þeim sem þjást af henni. Þvert á móti finnst mér sorglegt að 9 ára börn þurfi að þjást ofþyngd og hennar fylgifiskum. Í langflestum tilfellum er ofþyngd lífstílstengd og þá er örugglega gott að grípa í taumana sem fyrst.

 

Heimildir:
"Hvað borða íslensk börn?" http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11594/hvad_borda_isl_born_og_ungl.pdf 
"Obesity in Children and Teens", American Academy of Child & Adolescent Psychiatry 


mbl.is 23% níu ára barna of þung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband