Færsluflokkur: Bloggar

Erfitt með að sofna?

Hér er annar lítill moli.

1. Rannsókn sem gerð var í Taiwan sýndi að þeir sem borðuðu 2 kiwi  einni klukkustund fyrir svefn á hverju kvöldi í 4 vikur, sofnuðu 35% hraðar en þeir sem gerðu það ekki.
Kiwi innihalda efnið serotonin en það kemur reglu á svefninn.

2. Þess má geta að bananar, plómur og ananas innihalda einnig gott magn af serotonin. Valhnetur innihalda mjög mikið serotonin og þá sérstaklega tegundin "black walnut". Tómatar og spínat innihalda líka serotonin en í minna magni. 

Heimildir:
1. Þessar upplýsingar voru birtar á ensku í tímaritinu Adventist World. En þar er Men’s Health  gefið upp sem heimild.
2. http://www.livestrong.com/article/447943-what-food-or-fruit-contains-serotonin/


21 mínúta

Vissir þú að þeir sem hreyfa sig í 21 mínútu á dag eru 65% minna líklegir til þess að finna fyrir 2012-1005-page30-intext2.jpgþreytu á daginn en þeir sem hreyfa sig ekki? Nei? Nú veistu það. 

Heimild: Mental Health and Physical Activity (skemmtilegt og fróðlegt tímarit)

P.s. ekki svindla og halda að það þurfi bara að vera 21 mín. samanlagt yfir daginn. Núna er einmitt svo fínt veður úti til þess að fara í stutta morgun- eða kvöldgöngu.


Einföld breyting á kennslu

Mjög einföld en skilvirk breyting. Hér er myndband af kennara í BNA sem breytti kennsluaðferðum í bekknum sínum, það eina sem hún gerði var að snúa sínu hefðbundna kerfi við. Mér finnst þetta einstaklega sniðugt fyrir stærðfræðikennslu.


Hamp fræ

Það er hægt að búa til svo margar tegundir af hristingum, um að gera að skella öllu í blandarann.
Þetta er örugglega mjög góð uppskrift (þessi sem er í fréttinni sem ég er að blogga við). Þeir sem vilja taka þetta skrefinu lengra geta prófað að skipta kakóduftinu út fyrir karóbduft.

Ef þið viljið vita meira um hamp fræin þá skrifaði ég um þau fyrir örfáum mánuðum. Ýtið hér
Þar finnið þið líka uppskrift að mjólk úr hampfræjum.

 


mbl.is Alvöru súkkulaðisjeik í morgunmat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt epli á dag...

...kemur heilsunni í lag. Eða "An apple a day keeps the doctor away". Þetta getur varla verið rétt, eða hvað? Þau eru allavega góð gegn ýmsum kvillum. Þ.á.m. hafa efnin í eplum þá eiginleika að vera: þvagræsandi, kólestróllækkandi, blóðfitulækkandi, andoxunarefni, og þau vinna á móti bæði niðurgangi og harðlífi. Epli

  • Meira en 40 milljón tonn af eplum eru ræktuð á hverju ári.
  • Epli eru í 4. sæti af mest framleiddu ávöxtum í heiminum.
  • Eplin eru auðveld í matreiðslu, fara vel með nánast hverju sem er og eru mjög góð fyrir okkur.

Sykrur í eplum eru aðallega frúktósi og þess vegna mega sykursjúkir borða þau.  Þau innihalda mjög lítið af próteinum og fitu. Meðal vítamína í eplum eru C og E, og af steinefnum eru m.a. pótassíum og járn,.

Í 100g af hráu epli fær maður 11% af þeim trefjum sem maður þarf yfir daginn. Stærstur hluti trefjanna í eplum eru pektín. Pektín eru  trefjar sem leysast ekki upp. Þær draga í sig vökva og ýmisleg eiturefni og annan úrgang sem þær taka með sér út úr líkamanum og ofan í skólpræsikerfi borgarinnar.  

Lífrænar sýrur í eplum endurnýja normalflóruna í þörmunum og varna þannig gegn gerjum í þörmunum.

Tannín (barksýra). Epli er einn þeirra ávaxta sem er hvað ríkastur af tanníni. Tannín eru bólgueyðandi.

Boron hefur verið lítið rannsakað en það er frumefni sem finnst í eplum. Rannsóknir benda til þess að boron vinni með kalki og magnesíum í líkamanum og getur óbeint komið í veg fyrir beinþynningu.

Epli jafna út blóðþrýsting, hvort sem hann er of hár eða of lágur.

Lifrin og krónískt exem af völdum eiturefna.
Epli draga í sig eiturefni úr smáþörmunum, og auðvelda þar með hreinsun blóðsins og húðarinnar. Epli hjálpa til við að losa harðlífi og  stuðla að hreinsun lifrarinnar sem annars, ef full af eiturefnum getur valdið húðvandamálum.

Hátt kólesteról og æðakölkun
Epli lækka kólesteról  og koma í veg fyrir æðakölkun.  Það hefur sýnt sig að það að borða 2-3 epli á dag í nokkra mánuði dregur verulega úr kólestrólinu (þá er líka skynsamlegt að halda sig frá því sem hækkar kólestrólið).

Krabbamein í ristli
Rannsókn sem var framkvæmd í Japan sýndi fram á að epli borðuð í miklum mæli geti hjálpað við að hindra vöxt á fjölgun krabbameinsfruma í ristli.

En það er svo leiðinlegt að borða epli.

  • Hrá:  Mælt er með því að skræla epli vegna þess, að það er lítið magn af trefjum og vítamínum í hýðinu. Svo er allskonar efnum og gljáa sprautað á eplin til þess að þau líti vel út lengur. Svo er hýðið ekki eins auðvelt í meltingu.
  • Eplamauk: Það er svo gott á bragðið og svo er það tilvalið fyrir lítil börn og þá sem hafa litla matarlyst vegna veikinda eða öldrunar. Svo er það bara svo gott út á grauta og ofan á brauð.
  • Bökuð epli eru yndislega góð og það er jafnvel hægt að strá smá kanil ofan á þau.
  • Soðin epli eru líka mjög góð, og það er hægt að stappa þau í eplamauk.
  • Safi: Það er ekki slæm hugmynd að setja epli í safapressuna upp á tilbreytingu.

 Upplýsingar úr Healthy Foods eftir George D. Pamplona-Roger, læknir, skurðlæknir og prófessor í næringarfræði. 


Lárperan er vanmetin

Myndi þig ekki langa til þess að borða eitthvað sem gefur þér A,C,D,E og K vítamín og kannski líka B vítamínin (thiamín, níacin, biotin, pantothenic sýru, B-6, B-12 og fólat. Væri ekki æðislegt ef þessi ávöxtur innihéldi líka Kalíum (potassium), kalk, fosfór, sink, járn og kopar fyrir blóðið,  Lutein (mikilvægt fyrir augnheilsu) og magnesíum .

Ef svarið er „jú, að sjálfsögðu“ þá erum við í sama báti. Góðu fréttirnar eru þær að lárpera (avocado) inniheldur allt þetta.  Í þokkabót er hún líka svo fallega græn, mjúk og góð á bragðið.

Lárpera (avocado) er ávöxtur, ekki grænmeti en það skiptir svo sem engu máli.

Efni í lárperunni stuðla að lækkun LDL kólestrólsin.Lárperur

Eins og kom fram hér þá hjálpar avocado við að koma reglu á blóðþrýstinginn.

Nú hvernig borða ég þá avocado?

Þau eru venjulega hörð þegar maður kaupir þau úti í búð, þessi í grænu netunum eru oftast mjög fín. Þau þurfa venjulega að standa við stofuhita í nokkra daga áður en þau eru tilbúin. Þau eru orðin góð þegar þau eru farin að gefa eftir þegar maður kemur við þau. Þetta kemur með reynslunni, maður opnar etv. nokkur avocado of snemma eða of seint en fær þetta síðan á tilfinninguna. Lárperan er skorin í tvennt og innihaldið skafið úr. Ef avocadoið er brúnt þá er það ónýtt en ef það eru bara nokkrir brúnir deplar eða blettir þá má bara skera þá frá. Ekki geyma lárperu nálægt eplum, þá skemmast þau hraðar.

Ég tók meira að segja mynd fyrir ykkur til þess að sýna ykkur hvað lárperurnar eru fallegar!

Hægt er að borða lárperur eintómar, ofan á ristað brauð, með salati, sem ídýfu, með baunaréttum... endalausir möguleikar.

Guacamole

Guacamole er mjög vinsælt og mjög einfalt og gott. Það má stappa allt saman eða setja í blandara.

Innihald úr 1 frekar stóru vel þroskuðu avocado
1-2 hvítlauksrif
smá sítrónusafi (úr ferskri sítrónu að sjálfsögðu)
salt eftir smekk

Sumir vilja líka tómat í, sílantró, pipar eða e-ð annað. Það má setja hvað sem manni dettur í hug.

Barnamatur

1 avocado + 1 banani  = stappað saman.

Mjög einfalt, mjúkt, bragðgott, gífurlega auðmeltanlegt, inniheldur mikilvægar hollar fitusýrur og önnur næringarefni sem að mömmur vilja að börnin sín fái. Þetta var uppáhalds barnamaturinn minn og ég verð að játa að ég borða þetta enn í dag!

Gangi ykkur vel að prófa ykkur áfram!

Upplýsingar frá avocado.org, avocado.com og mömmu reynslubolta þegar það kemur að barnamat.


mbl.is Ekki henda steininum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrotlaus vinna brautryðjenda

Þrotlausa vinnan er aðdáunarverð hjá þeim Karli og Valentínu. Þau eru sannarlega brautryðjendur í sínum geira. Nú er hægt að finna holla, næringarríka og bragðgóða rétti í öllum betri verslunum landsins. Rosalega eru krakkarnir í Ísaksskóla og Landakotsskóla heppnir að fá svona almennilegan mat í hádeginu. Ég hef farið inn á Krúsku og það er svo huggulegur staður og maturinn er ótrúlega góður. Maður þarf ekki nema að stíga fæti inn um dyrnar til þess að sjá að 100% metnaður er lagður í matinn. Ég mæli eindregið með Móðir Náttúru réttunum og Krúsku :)


mbl.is Við „svindlum“ aldrei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögli morðinginn

Of hár blóðþrýstingur eða „hypertension“ hefur oft verið nefndur „the silent killer“  eða þögli morðinginn því að einkennin koma ekki alltaf greinilega í ljós. Mennskja sem virðist vera við hestaheilsu getur verið með of háan blóðþrýsting. 90% af tilfellum of hás blóðþrýs...tings eru ekki af völdum annarra sjúkdóma. „Slæmt“ matarræði getur valdið háþrýstingi.  Það merkilega er að það er til matur sem hjálpar við að lækka blóðþrýstinginn og halda honum jöfnum. Það er einnig hægt  að lækka blóðþrýstinginn með því að forðast mat sem stuðlar að hækkun blóðþrýstings. Hljómar einfalt og rökrétt, ekki satt?

Hvað getur hjálpað við að slá á háþrýsting?

  • Drekktu mikið vatn, það þynnir blóðið.
  • Trefjarík fæða er góð:  grænmeti, ávextir, hnetur (ósaltaðar n.b. jarðhnetur eru ekki hnetur!) og heilkorn. Þessir fæðuflokkar eiga ekki að valda of háum blóðþrýstingi.
  • Ávextir og grænmeti sem eru rík af kalíum (potassium). Kalíum hjálpar líkamanum að losa sig við óþarfa salt. Sem dæmi má nefna papaya, fíkjur, banana, og sveskjur.
  • Hvítlaukur jafnar út blóðþrýsting, hvort sem hann er of hár eða of lágur.
  • GSE – grapeseed extract (fyrir þá sem kannast við góðgætið)
  • Tómatar, laukur og sellerí ásamt hvítlauk draga úr háþrýstingi og hjálpa til við að styrkja hjartavöðvann.
  • Spergilkál (brokkolí), gulrætur, hvítkál, blómkál, kartöflur (með hýði), lárpera (avocado), appelsína, greipaldin og ferskjur eru einstaklega hjálpleg þegar koma á í veg fyrir að ákveðin efni setjist á æðaveggi og smám saman leiði til stíflunar kransæða.
  • Skortur á D-vítamíni hefur verið tengdur við of háan blóðþrýsting.
  • Cayenne pipar lækkar blóðþrýsting.

Hvað ætti ég að forðast þegar ég reyni að ná blóðþrýstingnum niður?

  • Ekki nota of mikið salt. Salt er ekki bara salt, það leynist úti um allt ekki gleyma matarsódanum, soya sósunni, gervisykri og rotvarnarefnum. Mjólkurvörur innihalda oft mikið salt/sodium.
  • Slepptu kjöti þá sérstaklega reyktum og unnum kjötvörum eins og beikoni, pylsum, skinku, kjötáleggjum og niðursoðnum fiski (t.d. túnfiski og sardínum).
  • Áfengi er alveg no - no.

Regluleg hreyfing (t.d. göngur, sund og önnur líkamsrækt) er mikilvæg til þess að viðhalda heilbrigðu hjarta- og æðakerfi.

Þessi stutta samantekt er einungis ætluð til fræðslu og á ekki að koma í staðinn fyrir læknisráðgjöf. Hinsvegar get ég sagt ykkur ótal sögur um konur og karla sem fóru eftir þessum einföldu ráðum og losnuðu við öll merki um háþrýsting.

Upplýsingarnar og ráðin eru fengin úr „Natural Remedies Encyclopedia“  sem Vance Ferrell og Harold M. Cherne, M.D. skrifuðu og tóku saman. Bókin er 1000 blaðsíðna hlunkur sem kann ráð við öllu.


Feitur, sjúkur og næstum dauður.

Hvað geta verið ánægjulegri fréttir en þær að við getum haft eitthvað að segja um heilsuna okkar? Getur kannski verið að okkur finnist stundum "þægilegra" að halda að sjúkdómar séu allir einfaldlega af völdum gena og að við getum ekkert við þeim gert? Við getum þá bara haldið áfram með okkar venjulega líf og þurfum engu að breyta, bíðum bara eftir að vísindamenn finni töfralausn á vandanum. 

Ég er á þeirri skoðun að það sem við setjum ofaní okkur geti ekki annað en haft áhrif á líkamann og líðan. 

Bróðir minn var að segja mér frá heimildarmynd sem hann sá fyrr á þessu ári. FAT, SICK AND NEARLY DEAD. Ég setti "trailerinn" hér fyrir neðan.

Myndin fjallar um mann sem var allt of þungur (140kg). Í kjölfar offitunar var hann búinn að fá sjálfsónæmissjúkdóm. Hann var á allskonar lyfjum gegn ýmsum kvillum sem hrjáðu hann. Hann var í bráðri hættu á að fá hjartaáfall og hann sá að lyfin voru bara skammtímalausnir.

Hann ákvað að taka á rót vandamálsins, sem var greinilega lífstíll hans og hann ákvað að taka sig á og hreinsa allt kerfið. Hann ráðfærði sig við næringarfræðinga og ákvað að fara á 60 daga safakúr og hann ferðaðist um Bandaríkin á sama tíma. Hann var undir eftirliti lækna til að fylgjast með árangrinum. 

Á þessum 60 dögum náði hann að losna af öllum lyfjum og sjálfsónæmið hætti að gera vart við sig. Eftir að hafa upplifað svona mikla breytingu og finna fyrir betri líðan fór hann að sjálfsögðu ekki tilbaka í gamla lífstílinn. Hann er grænmetisæta í dag og hreyfir sig reglulega.

Það sem ég er að reyna að segja er að það er fagnaðarefni að geta komið í veg fyrir óþarfa óþægindi og sjúkdóma með lífstílsbreytingum. Það er ekki of seint að byrja í dag að taka sig á. Það þarf ekki að vera flókið að breyta um lífstíl. Lausnin er venjulega einfaldari en við viljum hafa hana.

Það eru alveg að koma áramót og það er tilvalið að byrja að undirbúa áramótaheit :)

Kveðja,

Elísa

 

 

 P.s. Til að fyrirbyggja misskilning þá byggist safakúr á því að drekka ferska pressaða ávexti og grænmeti. Safarnir eru mjög næringarríkir og safakúr er oft notaður fyrir afeitrun líkamans. 60 daga safakúrs er frekar langur og er e.t.v. ekki lausnin fyrir alla. Það var tíminn sem þurfti fyrir þennan einstaklings því ástand hans var svo slæmt. Safarnir eru ekki "fernusafar" sem eru keyptir út í búð. Ef þið hafið áhuga á að fara á safakúr er sniðugt að leita sér frekari upplýsingar áður maður byrjar. 


mbl.is Lífsstílsþættir orsök 40% krabbameina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Linsubaunir - uppskrift & fróðleiksmolar

Linsur eru mjög „concentreraðar“, aðeins 11,2% af þyngd þeirra er vatn.  Þetta gerir þær að einstökum orkubrunni sem gefur 338 Kal/100 gr.  Mest af þessari orku eru prótein og kolvetni því linsur innihalda nánast enga fitu (minna en 1 %). Þær eru mjög járn – og trefjaríkar.

100 gr a þurrum linsum (sem er nóg í einn stóran skammt eða tvo litla) uppfyllir eða nær langt í að uppfylla daglega næringarþörf  fullorðins kalrmanns af eftirfarandi efnum:  

·         Prótein (28,1 gr) meira en helmingur af ráðlagðum dagsskammti (53%)

·         Trefjar (30,5 gr) uppfyllir 125 % af ráðlagðum dagsskammti

·         B1 vítamín  (0,475 mg)  nánast 1/3   (32%)

·         B6 vítamín  (0,535 mg) meira en ¼  (27 %)

·         Fólín  (433 mg)  meira en tvöfaldur ráðlagður dagsskammtur  (216 %)

·         Magnesíum (107) mg  nánast 1/3  (32 %)

·         Járn (9 mg)  (90 %)

·         Pótassíum  (915 mg) nánast helmingur (45%)

·         Sínk  (3,61 mg) nánast ¼  (24%)

·         Kopar (0.852 mg) meira en helmingur (57 %)

Allt þetta finnst í einum skammti af linsum. Það er engin furða að Esaú hafi selt bróður sínum frumburðarréttinn fyrir svona næringarríkan baunarétt.

Linsur eru góðar við blóðleysi, harðlífi, sykursýki, háu kólesteroli og þar sem þær eru ríkar af járni, trefjum og fólín eru þær tilvaldar fyrir barnshafandi konur.

Þó svo að linsur séu næringarríkar, þá eru önnur efni sem þær innihalda ekki eins og A,C og E vítamín, Kalk, B12 og linsubaunir innihalda nánast enga fitu. Þetta á við flesta fæðu, það er sjaldgæft að finna einn ákveðinn ávöxt eða hvað það nú er sem inniheldur allt sem við þurfum. Þess vegna er sniðugt þegar verið er að elda, að velja meðlæti sem bætir upp það sem aðalrétturinn hefur ekki.

Dæmi um það væri að bera t.d. brún hrísgrjón fram með linsum þar sem þau innihalda methionine, sem er lífsnauðsynleg amínósýra sem finnst ekki í linsubaunum. Athyglisvert fannst mér samt að spíraðar linsur innihalda allar nauðsynlegu amínósýrurnar! Sítrónusafi er líka góður þar sem hann auðveldar upptöku járns og er þar að auki bragðaukandi. Kál og spínat er tilvalið með í réttinn þar sem það er ríkt af kalki og svo gulrætur sem eru mjög A-vítamín ríkar.

Ég læt uppskrift fylgja af linsubaunarétt sem heitir Mazidra sem er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér.  Við notum venjulega French green/puy linsur sem eru grænbrúnar en það má líka notatypes-of-lentils venjulegar brúnar.

Mazidra

3 b. Vatn
1 b. Linsubaunir
1. Saxaður laukur
1 hvítlauksrif
1 lárviðarlauf
1/8 tsk timían
salt

Allt sett í pott. Þegar suðan er komin upp má lækka hitann og láta malla í 30-45 mín, eða þangað til linsubaunirnar eru orðnar mjúkar (samt ekki maukaðar).

Þetta borðum við svo með brúnum hrísgrjónum og salati, t.d. tómata, agúrkur, papriku, grænkál, spínat eða bara það sem er til. Persónulega finnst mér rétturinn ekki vera „rétt“ framreiddur ef það er ekki sítrónusósa með. Það er auðvelt að búa hana til, maður blandar bara sítrónusafa við ólífuolíu og nokkur hvítlauksrif. Sítrónan dregur fram góða bragðið ;)

Það er auðvelt að elda linsubaunir, því ólíkt mörgum baunategundum, þarf ekki að leggja þær í bleyti áður. Þetta er miklu einfaldara en það virðist, endilega bara prófa sig áfram! :) Gangi ykkur vel.

Staðreyndir um linsubaunir: Healthy Foods   eftir George D. Pamplona-Roger, M.D.  bls. 130, 135.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband