13.5.2015 | 11:02
Kjötskorts-borgarar
Ég hef mjög mikinn áhuga á mat, ég grínast stundum með þetta og segi að það að borða sé sérstakt áhugamál mitt. Líkaminn okkar gengur fyrir fæðu, þess vegna finnst mér sérstaklega gaman að lesa mig til um það sem ég læt ofan í hann. Þegar ég veit aðeins um það hvernig epli hjálpar líkamanum að starfa eðlilega þá er ennþá skemmtilegra að borða það. Síðan mín hefur legið í dvala vegna mikilla anna en nú er sumarið að koma, með sínum tómötum og jarðarberjum. Ég hlakka til að deila með ykkur nokkrum færslum á næstu vikum.
Ég held ég hafi gleymt að sýna ykkur litríku opnuna sem birtist í Morgunblaðinu 5. maí 2013. Smellið á myndina til að stækka hana, annars er hún skýrust í gagnabanka Moggans. Í greininni fékk ég myndarlega vini mína til þess að smakka á hollum barnvænum mat. Nú er kjötskortur á landinu, en þá er tilvalið að prófa nýja hamborgara sem eru hollir og trefjaríkir.
Hafraborgarar
4 bollar vatn
½ bolli soja sósa
¼ bolli næringarger
2 msk olía
1 msk möluð hörfræ
1 msk þurrkuð basilíka
2 tsk hvítlauksduft
2 tsk laukduft
1 tsk malað kóríander
1 tsk salvía
1 bolli smátt saxaðar valhnetur
4 bollar haframjöl
- Setjið allt nema haframjölið í pott á miðlungs hita.
- Þegar suðan hefur komið upp, hellið haframjölinu hægt út í og hrærið. Takið pottinn strax af helluni, setjið lokið á og leyfið honum að kólna.
- Hitið ofn að 180°C
- Mótið hamborgara úr deiginu og bakið í 20 mín á hvorri hlið.
Þessir borgarar eru bragðgóðir, bráðhollir og haldast vel saman. Tilvaldir á grillið eða í samlokuna. Við búum venjulega til slatta og eigum til í frystinum.
Þar til næst,
Elísa
P.s. Hver er uppáhaldsávöxturinn þinn? Ég vil gjarnan taka hann fyrir í næstu færslu.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.